Alþingi samþykkti í júní 2022 breytingar á lögum um lífeyrissjóði og fleiri lögum sem fela í sér talsverðar breytingar fyrir sjóðfélaga.
- Lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð hækkar úr 12% af launum í 15,5%.
- Lífeyrissjóðir hafa heimild til að bjóða sjóðfélögum að ráðstafa allt að 3,5% af launum til svokallaðar tilgreindrar séreignar með þrengri útborgunarheimildir en hefðbundinn séreignarsparnaður.
- Séreign af lágmarki verður ekki lengur undanþegin skerðingum almannatrygginga eða þátttöku í dvalarkostnaði á stofnun fyrir aldraða og fleira.
- Einstaklingar geta ráðstafað tilgreindri séreign skattfrjálst til kaupa á fyrstu fasteign að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Sjóðfélagar sem ekki hafa verið eigendur að íbúðarhúsnæði síðastliðin fimm ár geta talist fyrstu kaupendur og nýtt heimildir laganna.
- Lögin taka gildi 1. janúar 2023.
Þeim sem vilja lesa nánar um breytingarnar er bent á stjórnarfrumvarp á vefsíðu Alþingis, sjá hér. Fyrir neðan er að finna spurningar og svör um áhrif lagabreytinganna fyrir sjóðfélaga.
Tryggingastofnun ríkins hefur einnig birt upplýsingasíðu með spurningum og svörum sem hægt er að skoða hér.
Almenni lífeyrissjóðurinn hélt upplýsingafund um lagabreytinguna og áhrif þeirra þann 29. september þar sem ýmsar gagnlegar upplýsingar komu fram. Hér fyrir neðan má sjá upptöku frá fundinum.
-
Þurfa sjálfstæðir atvinnurekendur að greiða 15,5% iðgjald í lífeyrissjóð?
Já, frá og með 1. janúar 2023 hækkar lögbundið iðgjald, lágmarksiðgjald, í 15,5% af launum.
Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf og þjónustu. Stofn til iðgjalds skal vera allar tegundir launa eða þóknana fyrir störf sem eru skattskyld.
-
Hafa breytingar áhrif á samsetningu lágmarksiðgjalds (skiptingu milli séreignar og samtryggingar) í Almenna lífeyrissjóðinn?
Lágmarksiðgjaldið hækkar úr 12% af launum í 15,5%. Lagabreytingarnar hafa engin áhrif að því leyti að sjóðfélagar greiða áfram 8,5% af launum í samtryggingarsjóð. Hins vegar hækkar iðgjald í séreignarsjóð úr 3,5% í 7%.
Í stuttu máli, lágmarksiðgjald verður 15,5% sem skiptist þannig að 8,5% af launum greiðast í samtryggingarsjóð og 7% í séreignarsjóð sem er laus til útborgunar frá 60 ára aldri.
-
Mun Almenni lífeyrissjóðurinn bjóða upp á tilgreinda séreign?
Iðgjald greitt í Almenna lífeyrissjóðinn verður ráðstafað í hefðbundna séreign sem er laus til útborgunar frá 60 ára aldri.
Sjóðfélagar annarra lífeyrissjóða – greiða lágmarksiðgjald í tiltekinn lífeyrissjóð samkvæmt kjarasamningi – geta greitt iðgjald til tilgreindrar séreignar til Almenna. Í þeim tilvikum gilda útborgunarreglur skyldulífeyrissjóðs en almennt er heimilt að taka út tilgreinda séreign á fimm árum á aldrinum 62 til 67 ára.
-
Hvaða séreign mun skerða ellilífeyri almannatrygginga eftir að lögin taka gildi?
Öll séreign sem hefur myndast af lágmarksiðgjaldi eða skylduiðgjaldi í lífeyrissjóð mun skerða ellilífeyri almannatrygginga frá og með 1. janúar 2023. Sjóðfélagar sem eru þegar byrjaðir á lífeyri almannatrygginga verða þó undanþegnir, þ.e. útborganir þeirra úr séreignarsjóði munu ekki skerða greiðslur frá almannatryggingum.
Séreign sem hefur myndast af viðbótariðgjaldi hefur engin áhrif á greiðslur almannatrygginga. Ekkert breytist hjá sjóðfélögum sem eiga eingöngu þá tegund séreignar.
-
Get ég séð hvaða hluti inneignar í séreignarsjóði skerðir greiðslur Almannatrygginga?
Já, á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins er inneign sundurliðuð eftir tegund í lágmarks– og viðbótariðgjald. Inneign sem hefur myndast með greiðslu lágmarksiðgjalds skerðir greiðslur almannatrygginga. Inneign sem hefur myndast með greiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar hefur ekki áhrif á greiðslur almannatrygginga.
-
Hvað er til ráða fyrir sjóðfélaga sem höfðu reiknað með að útborganir úr séreignarsjóði hefðu ekki áhrif á greiðslur almannatrygginga?
Samkvæmt lögunum eru sjóðfélagar sem hafa þegar hafið töku lífeyris fyrir 1. janúar 2023 undanþegnir, þ.e. inneign sem hefur myndast með greiðslu lágmarksiðgjalds skerðir þá ekki greiðslur almannatrygginga. Sjóðfélagar sem eru orðnir 65 ára geta nýtt sér þetta ákvæði í lögunum og byrjað töku lífeyris á árinu 2022. Með töku lífeyris er hér átt við lífeyri almannatrygginga. Athygli er vakin á því að þeir sem sækja um ellilífeyri almannatrygginga verða að leggja fram staðfestingu á að hafa sótt um ellilífeyri hjá lífeyrissjóðum á sama tíma. Heimilt er að hefja töku ellilífeyris almannatrygginga frá 65 ára aldri.
Sjóðfélagar undir 65 ára aldri geta skoðað hvort það borgar sig að taka inneign út áður en þeir sækja um ellilífeyri almannatrygginga, í einu lagi eða með því að dreifa úttektinni til lífeyrisaldurs. Það sama gildir um eldri sjóðfélaga sem nýta sér ekki að sækja um lífeyri á árinu 2022. Ókosturinn við að flýta úttekt séreignar er að útborgun lendir þá mögulega í hæsta skattþrepi og skattur er greiddur í einu lagi í stað þess að dreifast yfir lengri tíma. Viðkomandi sjóðfélagi þarf því að bera ávinning þess að úttekt séreignar skerði ekki lífeyrisgreiðslur almannatrygginga (ellilífeyrir lækkar um 45% tekna umfram frítekjumark og fellur niður ef tekjur fara yfir 643 þúsund krónur í júní 2022) við kostnað vegna hærri skatta sem hlýst af því að taka inneign út í einu lagi eða á tiltölulega skömmum tíma. Ef líklegt er að væntar mánaðargreiðslur lækki greiðslur almannatrygginga er ávinningur af flýtingu úttektar yfirleitt meiri en auknar skattgreiðslur, sjá dæmi fyrir neðan.
Dæmi: Sjóðfélagi á 10 milljónir í inneign sem hefur safnast upp með greiðslu lágmarksiðgjalds.
- Sjóðfélaginn hafði ráðgert að ganga á inneign sína á 15 árum og fá þannig um 71 þúsund krónur í mánaðarlega úttekt sem myndi bætast við ellilífeyri samtryggingarsjóðs og almannatrygginga.
- Eftir lagabreytingar mun úttekt séreignar skerða greiðslur almannatrygginga um 32 þúsund krónur á mánuði og lækka þannig ráðstöfunartekjur um 19 þúsund krónur. Ef sú fjárhæð er núvirt í 15 ár lækka ráðstöfunartekjur samtals um 2,7 milljónir af því gefnu að hann lifi í 15 ár.
- Ef hann tekur inneignina út í einu lagi eru aukaskattgreiðslur 8,3% (miðað við að færast úr skattþrepi 2 í 3, 46,25%-37,95%) sem þýðir að skattar hækka um 830 þúsund krónur.
- Hækkun skattgreiðsla er lægri heldur en áætluð lækkun ráðstöfunartekna. Það borgar sig því að taka út inneign áður en taka lífeyris hefst, að því gefnu að sjóðfélaginn lifi í 3,9 ár (núvirði af 19 þús.kr. í 3,9 ár eru 830 þús.kr.) og óbreyttum reglum um greiðslur frá almannatryggingum.
-
Get ég valið hvaða tegund séreignar er greidd út?
Já, á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins geta sjóðfélagar valið greiðsluröð séreignar eftir tegund (lágmarksiðgjald, viðbótariðgjald) og ávöxtunarleið. Þannig getur hver og einn valið greiðsluröð séreignar og fjárhæðir til útborgunar.