Hvaða réttindi ávinna sjóðfélagar sér með greiðslum í Almenna lífeyrissjóðinn?
Hvernig eru réttindin frábrugðin öðrum lífeyrissjóðum?
Samsetning lífeyrisréttinda í Almenna lífeyrissjóðnum er öðruvísi en í flestum öðrum lífeyrissjóðum. Markmið sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum sveigjanleika um töku eftirlauna en einnig að verja þá og fjölskyldur þeirra fyrir fjárhagslegum áföllum vegna starfsorkumissis eða fráfalls. Þriðjungur af lágmarksiðgjaldi í Almenna lífeyrissjóðinn greiðist í séreignarsjóð en algengast er að lágmarksiðgjald greiðist allt í samtryggingarsjóð. Inneign í séreignarsjóði er laus til útborgunar við 60 ára aldur og geta sjóðfélagar ráðið hvort þeir taka inneignina út í einu lagi eða dreifa úttektinni á lengri tíma. Inneign í séreignarsjóði erfist við fráfall og eykur það fjárhagslegt öryggi aðstandenda.
Margir halda að það komi niður á réttindum í samtryggingarsjóði að einungis tveir þriðju hlutar lágmarksiðgjalds greiðist í sjóðinn og að réttindi séu minni en í hefðbundnum lífeyrissjóðum. Svo er ekki og réttindi í samtryggingarsjóði Almenna lífeyrissjóðsins eru mjög góð.
- Sjóðfélagar geta hafið töku ævilangs ellilífeyris á aldrinum 60 til 70 ára.
- Örorkulífeyrir er greiddur til 70 ára aldurs ef sjóðfélagar missa starfsorku. Fjárhæð örorkulífeyris í Almenna lífeyrissjóðnum er með því besta sem þekkist meðal lífeyrissjóða.
- Makalífeyrir er greiddur til maka við fráfall sjóðfélaga í 2,5 ár og lengur ef sjóðfélagi á barn undir 20 ára aldri eða ef makinn er öryrki og yngri en 67 ára.
- Barnalífeyrir er greiddur til barna yngri en 20 ára við fráfall eða við starfsorkumissi sjóðfélaga. Fjárhæð barnalífeyris er tvöfalt hærri en lágmarkslífeyrir samkvæmt lögum (í mars 2011 var fjárhæð barnalífeyris 28.075 kr. á mánuði). Ef barn látins sjóðfélaga á ekki foreldra á lífeyri er greiddur tvöfaldur barnalífeyrir.
Taflan sýnir nánari upplýsingar um lífeyrisréttindi í Almenna lífeyrissjóðnum.
Þrátt fyrir góð réttindi er mikilvægt að þekkja stöðu sína og gera ráðstafanir til að bæta hana ef þarf.
- Fylgstu með inneign og réttindum þínum á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins. Safnaðu saman upplýsingum um réttindi í öðrum lífeyrissjóðum. Einnig um annan sparnað sem þú ætlar að nota til að bæta við eftirlaunin.
- Ef það stefnir í að eftirlaun verði lægri en markmið þarf að auka sparnað. Nýttu þér heimildir til viðbótarlífeyrissparnaðar og ef það dugir ekki til skaltu safna því sem vantar með reglulegum sparnaði.
- Skoðaðu hvort þú ert nægjanlega tryggð/ur gegn tekjumissi vegna skertar starfsorku . Duga örorkulífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum og aðrar tryggingar sem þú nýtur til að framfleyta þér og fjölskyldu þinni ef þú missir starfsorku? Ef ekki skaltu gera ráðstafanir til að bæta við þig persónutryggingum.
- Farðu yfir hvaða bætur yrðu greiddar til fjölskyldu þinnar ef þú féllir frá. Ef þú telur að bæturnar dugi ekki til að tryggja fjárhagslegt öryggi fjölskyldunnar skaltu bæta við þig líftryggingu og kaupa hana beint af líftryggingafélagi.
Eftirlaunaþegar í Almenna lífeyrissjóðnum geta ráðið hvort þeir taka hærri lífeyri á fyrri hluta eftirlaunaáranna eða hvort þeir dreifa greiðslum jafnt til æviloka. Þeir geta líka sótt sér aukagreiðslur úr séreignarsjóði þegar þeim hentar, t.d. ef þeir fara í ferðalag, vilja bjóða ættingjum í afmælisveislu, kaupa sér nýja tölvu, o.s.frv.
Aðstandendur sjóðfélaga í Almenna lífeyrissjóðnum njóta góðra trygginga ef sjóðfélagi fellur frá. Til viðbótar við séreignarsjóð sem erfist fær maki greiddan makalífeyri og börn undir 20 ára aldri fá greiddan barnalífeyri sem er tvöfalt hærri en í hefðbundnum lífeyrissjóði. Ef sjóðfélagi lætur eftir sig börn en ekki maka erfa börnin séreignarsjóðinn og fá barnalífeyri sem er fjórfalt hærri en í venjulegum lífeyrissjóði.
Þrátt fyrir góð lífeyrisréttindi og séreignarsjóð, sem tryggir sveigjanleika og áhættudreifingu, ber hver og einn ábyrgð á sjálfum sér og sínum eigin fjárhag. Við hvetjum því sjóðfélaga til að fylgjast vel með inneign og réttindum og gera ráðstafanir ef þeir vilja bæta stöðuna. Spyrjið allra spurninga sem þarf að spyrja og hikið ekki við að biðja starfsfólk sjóðsins um að aðstoða ykkur. Við viljum aðstoða.
Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?
- Almenni lífeyrissjóðurinn býður sjóðfélögum að hitta ráðgjafa á stöðufundi um lífeyrisréttindi. Á stöðufundinum er farið yfir réttindi sjóðfélaga og veitt góð ráð um samsetningu lífeyrisréttinda og lífeyrisgreiðslur. Þú getur pantað stöðufund hér.
- Á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins getur þú fylgst með inneign í séreignarsjóði og réttindum í samtryggingarsjóði. Smelltu hér til að opna sjóðfélagavef eða sækja um aðgang.