Hver er örorkutrygging lífeyrissjóða?
Hvað greiða lífeyrissjóðir ef sjóðfélagar verða óvinnufærir vegna sjúkdóma eða slysa?
Borgar sig fyrir sjóðfélaga að bæta við sig tryggingum?
Sjóðfélagi fær greiddan örorkulífeyri ef hann verður fyrir tekjumissi vegna slyss eða sjúkdóms sem skerðir getu hans til að gegna því starfi sem veitti honum aðild að lífeyrissjóðnum en að þremur árum liðnum er miðað við hæfni hans til almennra starfa. Hjá flestum lífeyrissjóðum er miðað við að orkutapið sé 50% eða meira og að sjóðfélaginn hafi greitt í lífeyrissjóð í að minnsta kosti tvö ár. Fullur örorkulífeyrir er greiddur m.v. 100% örorku en lífeyrisgreiðslur eru hlutfallslegar ef orkutapið er á bilinu 50% til 100%. Örorkulífeyrir getur aldrei orðið hærri en tekjumissirinn sem sjóðfélaginn hefur orðið fyrir. Örorkulífeyrir lækkar eða fellur niður ef örorkan minnkar eða hverfur. Áunnin réttindi geymast ef sjóðfélagi hættir að greiða í lífeyrissjóð, til dæmis ef hann skiptir um vinnu og um lífeyrissjóð í leiðinni eða ef hann má og tekur ákvörðun um að skipta um lífeyrissjóð. Ef hann verður öryrki seinna á ævinni á hann rétt á örorkulífeyri hjá fyrri sjóðum sem miðast þá við áunnin réttindi eingöngu. Til að koma í veg fyrir að framreikningsréttindi glatist þegar einstaklingar skipta um lífeyrissjóð hafa sjóðirnir gert með sér samkomulag til að koma í veg fyrir réttindatap og um skipti á framreikningi ef sjóðfélagi verður öryrki fyrstu árin eftir að hann skiptir um lífeyrissjóð.
Allir verða fyrir áföllum um ævina. Stundum hafa þau áhrif á fjármálin og það þarf að gera ráð fyrir því og gera ráðstafanir til þess að draga úr afleiðingum þeirra. Hér koma nokkrar ráðleggingar um ráðstafanir til að draga úr tekjumissi vegna örorku.
- Tryggðu þig sérstaklega fyrstu árin á vinnumarkaði. Þeir sem eru að hefja störf á vinnumarkaði þurfa að gera sérstakar ráðstafanir fyrstu árin því það tekur nýja sjóðfélaga yfirleitt þrjú ár að öðlast rétt á framreiknuðum réttindum. Þetta þýðir að ungt fólk sem er að hefja störf á vinnumarkaði er í raun án örorkutryggingar fyrstu árin á vinnumarkaði.
- Tímabundin fjarvera af vinnumarkaði kallar á ráðstafanir. Þeir sem hverfa tímabundið af vinnumarkaði, t.d. vegna barneignarleyfis, atvinnuleysis eða náms, ættu að kynna sér hvaða áhrif tímabundin fjarvera hefur á lífeyrisréttindin. Ef tekjur minnka eða falla niður vegna fjarveru lækka framreikningsréttindi eða falla niður. Þegar sjóðfélagi hefur störf aftur tekur sex mánuði að öðlast framreikningsrétt að nýju. Þar sem framreikningur tekur mið af meðallaunum síðustu þriggja ára tekur allt að þrjú ár að ná aftur fullum framreikningsrétti. Hjá ungu fólki vega framreikningsréttindi mjög þungt og þess vegna er mjög áríðandi að huga að áhrifum breyttra aðstæðna á örorkulífeyri og gera ráðstafanir til að tryggja sig á annan hátt.
- Þekktu hvernig þú ert tryggður vegna örorku. Kynntu þér hvaða réttindi þú átt í lífeyrissjóðum og bætur persónutrygginga sem þú hefur keypt eða nýtur með öðrum hætti. Ákvæði um örorkulífeyri eru breytileg milli lífeyrissjóða og þess vegna er mikilvægt að sjóðfélagar kynni sér hvaða reglur gilda í þeim sjóðum sem þeir greiða í eða hafa greitt í á starfsævinni. Besta heimildin eru samþykktir viðkomandi lífeyrissjóða.
- Skoðaðu hvort þú þurfir meiri tryggingar. Þrátt fyrir full lífeyrissjóðsréttindi má halda því fram að flestir hafi þörf fyrir viðbótarörorkutryggingar sem hægt er að kaupa hjá tryggingafélögum. Örorkulífeyrir lífeyrissjóða er í flestum tilvikum nálægt 40%-50% af launum en yfirleitt er mælt með því að örorkubætur séu á bilinu 60% til 70% af launum.
Tryggingaþörf einstaklinga er mismunandi vegna ólíkra fjölskylduaðstæðna og fjárhagsskuldbindinga. Almennt má segja að tryggingaþörfin sé meiri eftir því sem fleiri einstaklingar eru á heimilinu og eftir því sem skuldir eru meiri. Ef tekjur lækka eða falla niður vegna starfsorkumissis þarf áfram að framfleyta heimilinu og greiða af skuldum. Lífið heldur áfram og þokkalegur fjárhagur hjálpar til við að venjast nýjum aðstæðum og getur jafnvel skipt sköpum um lífsgæði í framtíðinni.
Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?
- Almenni lífeyrissjóðurinn býður sjóðfélögum að hitta ráðgjafa á stöðufundi um lífeyrisréttindi. Á stöðufundinum er farið yfir réttindi sjóðfélaga og veitt góð ráð um samsetningu lífeyrisréttinda og lífeyrisgreiðslur. Þú getur pantað stöðufund hér.
- Á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins getur þú fylgst með inneign í séreignarsjóði og réttindum í samtryggingarsjóði. Smelltu hér til að opna sjóðfélagavef eða sækja um aðgang.