Hvaða réttindi ávinna einstaklingar sér með því að greiða í lífeyrissjóð?
Hvernig ávinnast réttindin og hvernig safnast þau upp?
Hvernig fylgist ég með réttindunum?
Samkvæmt lögum verða allir vinnandi einstaklingar að greiða lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð á aldrinum 16 til 69 ára. Iðgjaldið er yfirleitt 12% af launum og greiða einstaklingar 4% og fá 8% mótframlag frá launagreiðanda. Í sömu lögum eru skilgreind lágmarksréttindi sem lífeyrissjóðir verða að tryggja sjóðfélögum sínum fyrir iðgjöldin. Nokkir sjóðir, þ.á.m. Almenni lífeyrissjóðurinn, heimila sjóðfélögum að greiða hluta af lágmarksiðgjaldi í séreignarsjóð til að dreifa áhættu og auka svigrúm við töku lífeyris. Í þessari grein er eingöngu fjallað um lífeyrisréttindi, þ.e. réttindi í samtryggingarsjóðum.
Lífeyrisréttindi skiptast í elli- og áfallalífeyri.
- Ellilífeyrir er yfirleitt greiddur frá 60-70 ára aldri og er greiddur til æviloka.
- Áfallalífeyrir er samheiti fyrir örorku-, maka- og barnalífeyri. Örorkulífeyrir er greiddur ef starfsorka sjóðfélaga skerðist um 40% eða meira, makalífeyrir er greiddur til eftirlifandi maka við fráfall sjóðfélaga og barnalífeyrir er greiddur með börnum við fráfall eða við starsforkumissi.
- Lífeyrisréttindi ávinnast í hlutfalli við greidd iðgjöld. Réttindin eru verðtryggð og breytast mánaðarlega í takt við breytingu á vísitölu neysluverðs.
- Lífeyrisréttindi eru nokkuð mismunandi eftir sjóðum og sumir sjóðir veita meiri réttindi en þau lágmarksréttindi sem tilskilin eru í lögum.
- Flestir einstaklingar hafa greitt í marga lífeyrissjóði og eiga því réttindi í mörgum sjóðum. Samkvæmt lögum er ekki hægt að flytja réttindin milli sjóða og sameina þau í einn sjóð.
Þú greiðir stóran hluta af launum til að byggja upp verðmæt lífeyrisréttindi.
- Geymdu upplýsingar um áunnin lífeyrisréttindi og fylgstu með þróun þeirra. Hafðu samband við þann sjóð sem þú greiðir í núna ef þig vantar upplýsingar um í hvaða lífeyrissjóði þú hefur greitt í á starfsævinni.
- Notaðu upplýsingar um áunnin lífeyrisréttindi til að meta hvort þú þurfir að leggja meira fyrir til eftirlaunaáranna eða hvort þú getir eytt í annað eða aukið neyslu.
- Fylgstu með rekstri og fjárhagslegri stöðu þeirra lífeyrissjóða sem þú átt réttindi í. Það getur haft afgerandi áhrif á afkomu þína seinna á ævinni hvernig eignir sjóðanna eru ávaxtaðar og hver kostnaður við rekstur þeirra er.
- Þeir sem geta valið sér lífeyrissjóð ættu að kynna sér lífeyrisréttindi sem sjóðir úthluta og fjárhagslega stöðu sjóðanna áður en þeir velja sér sjóð til að greiða í. Spurðu um tryggingafræðilega stöðu sjóðanna og rekstrarkostnað.
Þegar kemur að starfslokum verður ellilífeyrir lífeyrissjóða stærsti tekjuliðurinn hjá flestum. Eftirlaunaárin eru langur tími og því þarf að passa vel upp á lífeyrisréttindin.
Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?
- Almenni lífeyrissjóðurinn býður sjóðfélögum að hitta ráðgjafa á stöðufundi um lífeyrisréttindi. Á stöðufundinum er farið yfir réttindi sjóðfélaga og veitt góð ráð um samsetningu lífeyrisréttinda og lífeyrisgreiðslur. Þú getur pantað stöðufund hér.
- Á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins getur þú fylgst með inneign í séreignarsjóði og réttindum í samtryggingarsjóði. Smelltu hér til að opna sjóðfélagavef eða sækja um aðgang.