Eru lífeyrismál karla og kvenna sambærileg?
Hverju þurfa konur að huga sérstaklega að í lífeyrismálum?
Lífeyrismál karla og kvenna eru í sjálfu sér eins. Þau fjalla um leiðir til þess að safna í sjóð sem greiðir eftirlaun eftir að vinnu lýkur og til að tryggja fjárhagslegt öryggi á starfsævinni. Áður fyrr, þegar flestar konur voru heimavinnandi var fyrirkomulagið öðruvísi, þá safnaði karlinn einn upp lífeyrisréttindum. Konur fengu að vísu greiddan ævilangan makalífeyri við fráfall eiginmannsins en makalífeyririnn féll niður ef konan giftist aftur eða ef hún ,,fann sér nýja fyrirvinnu.“
Sem betur fer fyrir alla hafa hlutirnir breyst og bæði karlar og konur vinna yfirleitt úti og báðir foreldrar fá fæðingarorlof þegar barn fæðist. Þetta þýðir líka að bæði kynin greiða oftast í lífeyrissjóð alla starfsævina og byggja upp réttindi til ævilangs ellilífeyris og áfallalífeyris við starfsorkumissi eða fráfalls. Stundum gerist það að lífeyrisréttindi hjóna eru mismunandi, t.d. ef annar aðili hjónabands hefur hærri laun en hinn, eða ef hjón ákveða að annað þeirra skuli vera heimavinnandi. Í þeim tilvikum þegar lífeyrisréttindi hjóna eru ólík geta hjón skipt lífeyrisréttindunum sem er bæði sanngjarnt og skynsamleg leið til að tryggja báðum aðilum ævilangan ellilífeyri.
En þrátt fyrir að lífeyrismál kvenna og karla séu nú svipuð þá er tvennt ólíkt. Tölfræðin sýnir að konur lifa lengur en karlar og að meiri líkur séu á því að þær missi starfsorku en karlar.
Í flestum tilvikum eru konur lengur fjarverandi af vinnumarkaði vegna barnseigna en karlar og missa því af verðmætum lífeyrisréttindum. Flestir lífeyrissjóðir taka tillit til ávöxtunartíma iðgjalda og úthluta réttindum eftir aldri. Yngri sjóðfélagar fá því meiri réttindi en eldri fyrir sama iðgjald. Kona sem fæðir 2 eða 3 börn missir því e.t.v. af tveimur til þremur verðmætum árum og verður því alltaf með lakari lífeyrisréttindi en karl sem hefur svipuð laun. Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði milda þessi áhrif.
Hér koma nokkur góð ráð til kvenna til að hafa í huga við skipulagningu eftirlaunasparnaðar.
- Settu þér markmið um eftirlaun og gerðu áætlun til að ná þeim. Reiknaðu með meðalævilengd kvenna þegar þú gerir áætlunina. Konur lifa að jafnaði 2 til 3 árum lengur en karlar og þurfa því stærri sjóð sem því nemur. Til að fá 100 þúsund krónur á mánuði í þrjú ár þarf að eiga 3,4 milljónir. Til að eignast þá fjárhæð þarf að leggja fyrir 9.300 kr. á mánuði í 20 ár eða 23.000 kr. í 10 ár. Hér er reiknað með 3,5% vöxtum.
- Berðu saman lífeyrisréttindi þín og maka þíns. Ef maki á meiri réttindi, t.d. vegna þess að þú hefur verið meira fjarverandi af vinnumarkaði vegna barnseigna, getur verið bæði skynsamlegt og sanngjarnt að skipta réttindunum.
- Tryggðu réttindi þín við starfsorkumissi. Leggðu mat á hvaða tekjur þú þurfir ef þú verður óvinnufær og gerðu ráðstafanir til að kaupa viðbótartryggingar ef áfallalífeyrir lífeyrissjóðsins þins dugir ekki til. Þessi ráðlegging á að sjálfsögðu við bæði kynin en þar sem konur hafa hærri örorkutíðni segir tölfræðin að fleiri konur þurfi á viðbótartryggingum að halda en karlar.
Engir tveir eru eins. Þrátt fyrir tölfræði og meðaltöl vitum við aldrei hvað bíður okkar í framtíðinni. Það á auðvitað við um bæði karla og konur. Það eina sem við getum verið viss um í fjármálum er að fyrirhyggja og forsjálni borgar sig alltaf. Sumir vilja halda því fram að konur séu fyrirhyggjusamari en karlar og benda á hina hagsýnu húsmóður máli sínu til stuðnings. Og vissulega var það þannig að húsmæður á fyrri tímum, þegar efni voru lítil, þurftu oft að beita lagni og fyrirhyggju til að fæða og klæða fjölskylduna. Engin tölfræði styður hins vegar fullyrðinguna en hin hagsýna húsmóðir er góður vitnisburður um að hver og einn getur bætt hag sinn með því að gefa sér tíma til að meta stöðu sína og skipuleggja.
Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?
- Almenni lífeyrissjóðurinn býður sjóðfélögum að hitta ráðgjafa á stöðufundi um lífeyrisréttindi. Á stöðufundinum er farið yfir réttindi sjóðfélaga og veitt góð ráð um samsetningu lífeyrisréttinda og lífeyrisgreiðslur. Þú getur pantað stöðufund hér.
- Á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins getur þú fylgst með inneign í séreignarsjóði og réttindum í samtryggingarsjóði. Smelltu hér til að opna sjóðfélagavef eða sækja um aðgang.