Getum við aðstoðað?

50 ára gamalt tímahylki

01. ágúst 2023

50 ára gamalt tímahylki

Á dögunum fékk Almenni lífeyrissjóðurinn heimsókn frá fyrrum stjórnarmanni í Lífeyrissjóði Tæknifræðingafélags Íslands.  Sá sjóður er elstur forvera Almenna lífeyrissjóðsins en hann var stofnaður þann 4. maí 1965. Stjórnarmaðurinn fyrrverandi heitir Kristján Björnsson og hafði verið að taka til í gömlum skjölum og fundið fundargerðir, árskýrslur og önnur ópersónugreinanleg gögn frá  fyrstu árum sjóðsins.  Hann hafði samband við Almenna og færði sjóðnum gögnin.

Það má líkja gögnunum við það að fá í hendur 50 ára gamalt tímahylki. Gögnin eru frá árunum 1967 til 1973 og kennir ýmissa grasa. Meðal annars er fyrsta tölublað fyrsta árgangs Tæknifræðingsins, Félagsbréfs Tæknifræðingafélags Íslands frá janúar 1967. Í Félagsbréfinu er meðal annars fjallað um inntöku nýrra félaga og stofnun Lífeyrissjóðs Tæknifræðingafélagsins.
Í gögnunum var einnig vandaður bæklingur sem ber nafn Lífeyrissjóðs Tæknifræðingafélagsins en ekki annan titil. Í bæklingnum sem líklega er frá árinu 1971 er fjallað um starfsemi sjóðsins og lífeyrissjóðanna almennt auk þess sem fjallað er um markmið og tilgang lífeyrissjóða. Fram kemur að víðtæk samstaða hafi verið á milli atvinnurekenda og launþega um stofnun sjóðanna. Sagt er frá að lífeyrissjóður bænda hafi verið stofnaður og að segja megi „að allur þorri landsmanna eigi kost á aðild að lífeyrissjóði og sé jafnvel skyldur til þátttöku í slíkum sjóði.“

Þakka má framsýni þessara frumkvöðla lífeyriskerfisins að lífeyrissjóðirnir eru eins öflugir og þeir eru í dag en skylduaðild allra er einmitt talin það sem gerir það að verkum að íslenska lífeyriskerfið er talið það öflugasta í Evrópu samkvæmt OECD.  Lífeyrisþegar dagsins í dag og framtíðarinnar geta þakkað þessu fólki fyrir framsýnina.

Sjóðurinn þakkar Kristjáni kærlega fyrir innlitið, fyrir að deila þessum gögnum og gefa um leið innsýn inn í þau brautryðjendastörf sem unnin voru á þessum árum.

Á myndinni að ofan má sjá forsíðu Félagsbréfs og bæklings ásamt möppunni góðu sem Kristján Björnsson afhenti Almenna. Myndirnar að neðan eru innan úr bæklingnum.