Ársreikningur 2024
19. mars 2025

Ársreikningur Almenna lífeyrissjóðsins fyrir árið 2024 hefur verið birtur. Reikningurinn verður lagður fyrir ársfund sjóðsins sem verður haldinn á Hilton Nordica Reykjavík þann 3. apríl 2025 kl. 17:15. Streymt verður frá fundinum.
Ársreikning 2024 má sjá með því að smella hér. Ársskýrsla Almenna 2024 í heild má sjá hér.
Helstu atriði í reikningnum eru eftirfarandi:
- Heildareignir 477 milljarðar.
- Greidd iðgjöld 25,4 milljarðar sem er 9,5% hækkun á milli ára.
- Greiddur lífeyrir samtryggingarsjóðs var 5,5 milljarðar.
- Lífeyrisgreiðslur séreignarsjóðs námu 8,2 milljörðum.
- Raunávöxtun samtryggingarsjóðs 7,4%.
- Raunávöxtun séreignarsjóðs var á bilinu 1,7% til 8,7%.
- Á árinu voru veitt ný lán til sjóðfélaga fyrir 8,9 milljarða. Uppgreidd lán á sama tíma námu 3,5 milljörðum.
- Tryggingafræðileg staða sýnir að heildarskuldbindingar eru 2,4% umfram eignir. Staðan er innan marka í lögum.
Nánar:
Í árslok 2024 nam hrein eign til greiðslu lífeyris 477 milljörðum króna og stækkaði sjóðurinn um 62 milljarða eða um 14,8% á árinu. Sjóðfélagar í árslok voru 63.414 og fjölgaði þeim um 5,4% milli ára. Hrein eign til greiðslu lífeyris í séreignarsjóði var 252 milljarðar og í samtryggingarsjóði 225 milljarðar.
Árið 2024 reyndist fjárfestum hagfellt, þar sem helstu verðbréfamarkaðir skiluðu góðri ávöxtun. Allar ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins sýndu jákvæða nafnávöxtun á bilinu 6,6% til 13,8% og raunávöxtun frá 1,7% til 8,7%. Hæsta ávöxtunin var í Ævisafni I, sem hækkaði um 13,8%, sem jafngildir 8,7% raunávöxtun.
Lífeyrisgreiðslur samtryggingarsjóðs námu 5,5 milljörðum kr. árið 2024, 18,6% hækkun frá fyrra ári, til 3.490 lífeyrisþega. Greiðslur séreignarsjóðs voru 8,2 milljarðar kr., hækkun um 16,6%. Þar af var 1,2 milljarður greiddur inn á húsnæðislán 2.984 sjóðfélaga og 70,1 milljónir til fyrstu íbúðarkaupa 88 sjóðfélaga samkvæmt úrræði ríkisstjórnarinnar.
Sjóðurinn lánaði sjóðfélögum 8,9 milljarða með veði í fasteignum árið 2024, en árið á undan voru veitt ný lán fyrir 9,7 milljarða. Á árinu voru greidd upp eldri lán fyrir 3,5 milljarða þannig að nettó lánveitingar námu 5,4 milljörðum en árið á undan nam uppgreiðsla eldri lána 2,2 milljörðum og nettó lánveitingar voru 7,5 milljarðar.
Tryggingafræðileg úttekt fyrir lok árs 2024 sýnir að heildareignir samtryggingarsjóðs nema 388,4 milljörðum króna, en skuldbindingar 397,8 milljörðum, sem þýðir að skuldbindingar umfram eignir eru 9,4 milljarðar eða 2,4%. Sjóðurinn er þó innan lögbundinna marka.
Áfallin staða hefur batnað úr -7,7% í -4,1%, að mestu vegna góðrar ávöxtunar. Hrein raunávöxtun var 7,4% og nafnávöxtun 12,5%, en skuldbindingar hækkuðu um 8,5%, þar af 4,8% vegna verðbólgu og 3,5% vegna reiknaðrar raunávöxtunar.
Fjármálaráðuneytið tilkynnti í desember 2021 að lífeyrissjóðir skyldu taka upp nýjar líftöflur við mat á skuldbindingum samtryggingadeilda. Nýju líftöflurnar gera ráð fyrir lengri meðalævi komandi kynslóða, sem þýðir að sjóðfélagar lifa lengur en áður var gert ráð fyrir. Þar sem lífeyrissjóðir greiða ellilífeyri til æviloka leiðir aukinn lífaldur til lengri greiðslutíma lífeyris, sem aftur eykur skuldbindingar sjóðanna. Hæstiréttur staðfesti með dómi 27. nóvember 2024 í máli Lífeyrissjóðs Verslunarmanna gegn sjóðfélaga að heimilt sé að aðlaga réttindi sjóðfélaga eftir aldri vegna nýrra líftaflna. Í málinu var deilt um hvort sjóðnum hafi verið heimilt að breyta réttindum sjóðfélaga á grundvelli aldursháðrar aðlögunar. Dómurinn er fordæmisgefandi fyrir aðra lífeyrissjóði og staðfestir lögmæti slíkrar réttindaaðlögunar. Niðurstaðan er í fullu samræmi við breytingar á réttindum sem samþykktar voru á ársfundi Almenna lífeyrissjóðsins 31. mars 2022.
Ársfundur 2025 og rafrænt stjórnarkjör
Nánari upplýsingar um rekstur og afkomu Almenna lífeyrissjóðsins verða veittar á ársfundi hans fimmtudaginn 3. apríl kl. 17:15 á Hilton Nordica Reykjavík.
Stjórnarkjör í Almenna lífeyrissjóðinn fer fram með rafrænum hætti í aðdraganda ársfundar. Alls eru 32 sjóðfélagar í framboði um fjögur laus sæti í aðalstjórn og varastjórn. Af þeim eru 28 í framboði um tvö laus sæti karla í aðalstjórn og 28 um tvö laus sæti í varastjórn. Eingöngu sjóðfélagar geta boðið sig fram og eingöngu sjóðfélagar geta kosið á milli þeirra.
Kosning fer fram dagana 26. mars til 2. apríl. Upplýsingar um frambjóðendur og rafrænt stjórnarkjör árið 2025 má lesa hér.