Erlend hlutabréf draga vagninn
16. maí 2024
Góð ávöxtun blandaðra safna
Allar sjö ávöxtunarleiðir sjóðsins skiluðu jákvæðri nafn- og raunávöxtun á fyrsta þriðjungi ársins. Blandaðar ávöxtunarleiðir sem fjárfesta bæði í skuldabréfum og hlutabréfum hækkuðu um 3,7% til 4,5% á tímabilinu. Ævisafn I hækkaði mest eða um 4,5% sem jafngildir um 2,1% raunávöxtun.
Heimsvísitala erlendra hlutabréfa MSCI hækkaði um 4,8% í dollurum eða um 7,9% í íslenskum krónum fyrstu fjóra mánuði ársins þar sem krónan hefur veikst gagnvart dollara á tímabilinu. Miklar hækkanir voru á erlendum hlutabréfamörkuðum undir lok síðasta árs og héldu þær áfram fyrstu vikur ársins. Viðsnúningur varð í byrjun apríl þegar hækkanir ársins gengu að hluta til baka en markaðurinn tók við sér á ný upp úr miðjum apríl.
Innlendur hlutabréfamarkaður hefur átt erfitt uppdráttar á fyrstu mánuðum ársins. Flest skráð félög hafa lækkað frá áramótum. Heildarvísitala aðallista hækkaði um 2,5% á fyrsta þriðjungi ársins og er það að stærstum hluta vegna hækkunar á Alvotech sem vegur yfir fimmtung af vísitölu aðallista.
Ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa hefur lækkað frá áramótum sem leiðir til hækkunar á virði þeirra. Vísitala Nasdaq Iceland fyrir 10 ára löng verðtryggð skuldabréf hækkaði um 4,2% á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Hins vegar hefur ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa hækkað frá áramótum sem veldur því að vísitala Nasdaq Iceland fyrir 10 ára óverðtryggð skuldabréf hækkaði aðeins um 0,5% á tímabilinu. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 2,4% frá áramótum.
Horfur um ávöxtun á árinu 2024 eru áfram blandaðar. Verðbólga hefur hjaðnað í mörgum löndum og líkur eru á að seðlabankar, t.d. í Bandaríkjunum, gætu byrjað á að lækka stýrivexti eftir hækkunartímabil síðustu ára, óvissa er þó um hvenær nýtt vaxtalækkunartímabil hefjist en vísbendingar eru um að lengra sé í það en margir hafa talið. Stríðsátök í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs valda áhyggjum, sérstaklega ef átökin breiðast út til annarra landa. Á Íslandi er óvissa vegna jarðhræringa á Reykjanesi en framhald þeirra gæti haft nokkur áhrif á hagkerfið. Vaxtastig er ennþá hátt hér á landi og ekkert bólar á vaxtalækkunum þrátt fyrir tiltölulega hóflega kjarasamninga. Háir vextir eru farnir að „bíta“ víða og margir hagvísar benda til þess að hagvöxtur sé að minnka.
Blönduð söfn | Ávöxtun blandaðra ávöxtunarleiða, þ.e. Ævisafna I, II, III og samtryggingarsjóðs var frá 3,7% til 4,5%. Hækkanir á erlendum hlutabréfamörkuðum og hækkanir á verðtryggðum skuldabréfum höfðu mest áhrif til hækkunar á gengi safnanna en lækkun á innlendum hlutabréfum dró úr hækkun þeirra. | |
Ríkissafn | Ríkissafnið hækkaði um 3,4%. Það sem skýrir ávöxtun safnsins er lækkun á ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa sem þýðir gengishagnað fyrir skuldabréf. Vísitala neysluverðs hækkaði um 2,4% á fyrstu fjórum mánuðum ársins og er verðtryggingarhlutfall safnsins um 94%. | |
Innlánasafn |
Innlánasafnið hækkaði um 2,9%. Safnið ávaxtar eignir sínar að stærstum hluta á bundnum innlánsreikningum og vega verðtryggð innlán um 98% af eignum safnsins.
|
|
Húsnæðissafn | Húsnæðissafnið hækkaði um 2,8%. Safnið ávaxtar eignir sínar að mestu í veðskuldabréfum, innlánum og í stuttum óverðtryggðum ríkisskuldabréfum. |
Góð eignadreifing
Ávöxtun verðbréfasafna ræðst af eignasamsetningu og ávöxtun einstakra verðbréfaflokka. Almenni lífeyrissjóðurinn leggur mikla áherslu á góða eignadreifingu til að draga úr heildaráhættu safnanna. Sjóðurinn birtir mánaðarlega upplýsingar um ávöxtunarleiðir þar sem meðal annars má lesa um eignasamsetningu. Smellið hér til að skoða upplýsingablöðin. Sjóðurinn birtir einnig ítarlegar upplýsingar um ávöxtun og sveiflur á heimasíðu, sjá nánar hér.