Getum við aðstoðað?

Fjárfestingarstefna Almenna lífeyrissjóðsins 2025

29. nóvember 2024

Fjárfestingarstefna Almenna lífeyrissjóðsins 2025

Fjárfestingarstefna Almenna lífeyrissjóðsins fyrir árið 2025 var samþykkt af stjórn sjóðsins þann 27. nóvember 2024.

Fjárfestingarstefnan er birt í heild sinni á vefsíðu sjóðsins, sjá hér. Stefnan er ítarleg en í henni má lesa um uppbyggingu sjóðsins og ávöxtunarleiðir, sögulega langtímaávöxtun eignaflokka sem er kjarninn að stefnu um eignasamsetningu, efnahagshorfur og vænta ávöxtun, fjárfestingarstefnu og vikmörk, takmarkanir og viðmið. Stefna um ábyrgar fjárfestingar, eigendastefna og lánareglur eru fylgiskjöl með fjárfestingarstefnunni.

Helstu breytingar frá fjárfestingarstefnu 2024 eru eftirfarandi:

  • Litlar breytingar eru gerðar á fjárfestingarstefnu blandaðra ávöxtunarleiða, Ævisafns I – III og samtryggingarsjóðs, á milli ára. Hlutföllum einstakra eignaflokka í stefnu safnanna hefur verið hnikað til og lítilsháttar breytingar gerðar á viðmiði fyrir meðallíftíma skuldabréfa.
  • Stefna um fjárfestingar í erlendum sérhæfðum hlutabréfasjóðum hefur verið aukin lítillega, úr 7% í 8% í Samtryggingarsjóði og Ævisafni II, úr 4% í 4,5% í Ævisafni III og úr 9% í 10% í Ævisafni I. Á móti er dregið úr vægi skráðra erlendra hlutabréfa í stefnu safnanna. Er þessi breyting gerð með sveiflujöfnun og hærri vænta ávöxtun í huga og áhættudreifingarsjónarmið vega hér jafnframt þungt, en samþjöppun á skráðum erlendum hlutabréfamarkaði hefur aukist talsvert á undanförnum árum.
  • Stefna um fjárfestingar í erlendum skuldabréfum hefur jafnframt verið aukin lítillega, úr 5% í 6% í Samtryggingarsjóði og Ævisafni II og úr 3,5% í 4% í Ævisafni I. Á móti er dregið úr vægi innlána. Fjárfestingar lífeyrissjóðsins í erlendum skuldabréfum hafa aukist á undanförnum misserum m.a. vegna markaðsaðstæðna og þessi breyting í stefnu fellur að þeim áherslum.
  • Breytingar eru gerðar á fjárfestingarstefnu Húsnæðissafns á þann hátt að safnið stefni að fjárfestingum í dreifðu safni innlendra skuldabréfa, bæði ríkisskuldabréfum, sértryggðum skuldabréfum, sveitarfélagabréfum, fyrirtækjaskuldabréfum og veðskuldabréfum, í stað þess að stefna að fjárfestingum að mestu í veðskuldabréfum og ríkisskuldabréfum. Til samræmis við breytta stefnu er nafni safnsins breytt í Skuldabréfasafn. Þessar breytingar verða jafnframt kynntar eigendum safnsins.
  • Ný ávöxtunarleið séreignarsparnaðar sem fjárfestir í erlendum verðbréfum hefur litið dagsins ljós og ber nafnið Erlent verðbréfasafn. Fjárfestingarstefna gerir ráð fyrir að safnið fjárfesti um 70% í erlendum hlutabréfum og 30% í erlendum skuldabréfum. Mikil áhættu­dreifing á eignaflokka, lönd og atvinnugreinar einkennir undirliggjandi eignir safnsins, en sveiflur í ávöxtun geta jafnframt verið miklar.
  • Stefna Almenna lífeyrissjóðsins um ábyrgar fjárfestingar og eigendastefna eru staðfestar sérstaklega af stjórn og eru fylgiskjöl með fjárfestingarstefnu. Óverulegar breytingar eru gerðar á stefnunum á milli ára.