Góð ávöxtun í þröngri stöðu
25. janúar 2013
Ávöxtun ársins 2012 var mjög góð, allar ávöxtunaleiðir hækkuðu og hæsta raunávöxtun sjóðsins frá upphafi 16,6% (Ævisafn I) leit dagsins ljós.
Gjaldeyrishöft, takmarkaðir fjárfestingamöguleikar voru einkennandi fyrir fjárfestingarumhverfið á árinu 2012. Gjaldeyrishöftin setja fjárfestum þröngar skorður og gera það að verkum að ekki er mögulegt að dreifa áhættunni eins mikið og eðlilegt getur talist með fjárfestingum í erlendum eignum. Fyrir vikið hefur orðið til ójafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar en talið er að fjárfestar leiti nú logandi ljósi að hagstæðum fjárfestingakostum innan gjaldeyrismúranna. Aukin skattheimta, lægra afurðaverð, væntingar um frekari vaxtahækkanir og erfiður vinnumarkaður bæta enn á svartsýni atvinnulífs, almennings og fjárfesta.
Á ljósu hliðinni er hins vegar að hagvöxtur mældist á síðasta ári og verðbólga og atvinnuleysi virðast á niðurleið. Fjölgun skráðra félaga í Kauphöllinni eykur einnig á bjartsýni fólks auk þess sem markaðir fyrir hlutabréf og skuldabréf eru að taka við sér.
Jákvæðustu fréttirnar í ávöxtun síðasta árs er líklega að finna í hækkun á erlendum mörkuðum, hækkun á verðtryggðum skuldabréfum og hækkun á innlendum hlutabréfum. Innlend hlutabréf voru hins vegar lítill hluti eigna og höfðu þar af leiðandi takmörkuð áhrif á ávöxtun sjóðsins. Stutt óverðtryggð ríkisskuldabréf hækkuðu lítið samanborið við aðra eignaflokka.
Uppgjör við Glitni í maí hafði mjög jákvæð áhrif á ávöxtun ársins. Ástæða þess er sú að sjóðurinn hafði bókfært verstu mögulegu útkomu uppgjörsins sem varúðarfærslu. Þegar ljóst var að uppgjörið varð betra hafði það jákvæð áhrif á afkomu og ávöxtun sjóðsins.
Þá eru gjaldeyrisáhrif ótalin en veiking krónunnar hafði verulega jákvæð áhrif á ávöxtun sjóðsins, sérstaklega í þeim eignasöfnum þar sem stór hluti er í erlendum eignum. Þau eignasöfn nutu bæði hækkunar á erlendum mörkuðum og gengissigs íslensku krónunnar.