Lágmarksiðgjald
Lágmarksiðgjald samkvæmt lögum er 15,5% frá og með 1. janúar 2023.
- Til iðgjaldsstofns skal ekki telja hlunnindi sem greidd eru í öðru formi, svo sem fatnaður, fæði og húsnæði, eða greiðslur sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, t.d. ökutækjastyrkur, dagpeningar og fæðispeningar.
- Skipting á milli launagreiðanda og launþega fer eftir kjarasamningi eða ráðningarsamningi. Oftast greiðir launþegi 4% og launagreiðandi 11,5% af launum.
- Launagreiðendum er skylt að draga lífeyrissjóðsiðgjald mánaðarlega af launum starfsmanna og skila því til viðkomandi lífeyrissjóðs eða vörsluaðila lífeyrissparnaðar.
- Skylt er að greiða í lífeyrissjóð frá 16 ára aldri til 70 ára.
- Lífeyrissjóðsnúmer Almenna fyrir lágmarksiðgjöld er L005.
Viðbótariðgjald
Launagreiðanda er skylt að draga viðbótarlífeyrissparnað frá launum og greiða til þess vörsluaðila lífeyrissparnaðar sem launþegi velur.
- Launþegum er heimilt að greiða allt að 4% af launatekjum í viðbótarlífeyrissparnað til viðbótar þeim 4% sem ber að greiða í lífeyrissjóð.
- Launagreiðandi greiðir oftast 2% mótframlag í viðbótarlífeyrissparnað á móti a.m.k. 2% sparnaði launþega samkvæmt kjarasamningi eða ráðningarsamningi.
- Lífeyrissjóðsnúmer Almenna fyrir viðbótariðgjöld X004.
Endurhæfingarsjóður
Öllum launamönnum ber samkvæmt lögum að inna af hendi iðgjald til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs.
- Iðgjald til endurhæfingarsjóðs er 0,1% af heildarlaunum.
- Greiðsluskylda nær einnig til þeirra sem ekki eiga aðild að kjarasamningum.
- Launagreiðanda ber að standa skil á iðgjaldinu til þess lífeyrissjóðs sem hann greiðir lífeyrisiðgjald til.
- Lífeyrissjóður skal hafa milligöngu um innheimtu iðgjalds til endurhæfingarsjóðs og ráðstafa því svo til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs.
- Lífeyrissjóðsnúmer endurhæfingarsjóð er R005.
- Nánari upplýsingar um endurhæfingarsjóð er að finna á slóðinni virk.is
Innheimtuferli
Gjalddagi iðgjalda hvers mánaðar er 10. dag næsta mánaðar og eindagi er síðasti virki dagur þess mánaðar. Ef iðgjöld eru ekki greidd á réttum tíma eru reiknaðir dráttarvextir á gjalddaga til greiðsludags.
- Innheimtuferli hefst ef skilagrein hefur borist en ekki iðgjald eða launþegi hefur samband vegna vangoldinna iðgjalda.
- Launagreiðanda er sent innheimtubréf og honum gefinn frestur til að standa skil á iðgjaldinu.
- Ef innheimta ber ekki árangur er iðgjaldið sent í lögfræðiinnheimtu.